Leitarorð (keywords) eru hornsteinn leitarvélabestunar (SEO). 

Þú getur ekki sleppt því að gera leitarorðagreiningu og nota leitarorðin (LO) þín svo í innihaldi vefsíðu þinnar, ef þú vilt ná árangri á leitarvélunum.

Leitarorð eru skilgreind í tvennu lagi:

 • stuttur leitarorðastrengur (SLS) (short tail keyword) og
 • langur leitarorðastrengur (LLS) (long tail keyword)

Leitarorð og leitarorðastrengir eru í grunninn þau orð sem lýsa þeirri þjónustu sem þú veitir eða vöru sem þú selur. Leitarorð í heildina eru orð, orðasambönd og orðaröð sem líklegt þykir að notandi leitarvélar muni slá inn í leitargluggann í von um að fá svar við spurningu sinni.

Stuttur leitarorðastrengur getur verið eitt til tvö/þrjú orð og langur leitarorðastrengur er fjögur orð eða fleiri, alveg uppí heila setningu.

Það getur verið mjög erfitt að besta vefsíðu með stuttum leitarorðastrengjum vegna þess hve mikið þau orð eru notuð. T.d eru mjög margir um orðið bíll og mjög margir um orðið uppskrift.

Langir leitarorðastrengir gefa til kynna að notandinn sé tilbúinn til þess að grípa til aðgerða; kaupa, skrá sig, vera með og þar fram eftir götunum. Stuttir leitarorðastrengir gefa hinsvegar til kynna að notandinn sé bara að vafra.

Semsagt, þá er notandinn líklega bara að skoða sig um ef hann skrifar inn “bíll”. Ef hann hinsvegar skrifar inn “Volvo XC90 svartur sjálfskiptur 6 gíra með topplúgu” (ég veit ekki hvort þessir bílar koma með topplúgu, ég hef ekkert vit á bílum ) er mjög líklegt að hann sé búinn að ákveða hvaða bíl hann vill og er meira tilbúinn að kaupa hann en þegar hann skrifaði bara “bíll”.

Þó svo að langir leitarorðastrengir mælist með minna leitargildi (search volume) heldur en stuttir þá eru langir strengir oftar notaðir á Google (yfir 70% af leitum gerðum á Google eru langir leitarorðastrengir). Það er því ærin ástæða til að leggja á sig smávegis vinnu til að setja saman langa leitarorðafrasa til þess að besta vefsíðuna með. Þeir munu að öllum líkindum færa þér viðskiptavini sem eru tilbúnir til þess að kaupa og eru viðskiptavinir sem hafa alvöru áhuga á þjónustunni/vörunni sem þú hefur fram að færa.

Hvernig velur þú bestu leitarorðastrengina til þess að besta þína vefsíðu?

Þú finnur út hvaða leitarorð þú getur notað í markaðssetningu (á vefsíðunni þinni sem og utan hennar) með því að gera leitarorðagreiningu. Til þess að gera góða leitarorðagreiningu er betra að þú þekkir markhópinn þinn, eiginlega er það nauðsynlegt, svo þú vitir nákvæmlega við hvern þú ert að tala.

Framkvæmd leitarorðagreiningar gæti farið svona fram:

Notaðu “brainstorm” aðferðina til þess að fá ferlið í gang. Ef þú þekkir ekki “brainstorm” aðferðina þá virkar hún svona:

Fáðu þér blað og blýant og skrifaðu á miðju blaðsins hver aðal hugmyndin er, hvað er það sem þú ert að selja, hvaða gerð þjónustu veitir þú? Það er áhrifaríkast að stilla klukku á 15-20 mín og vera með algjöran fókus á verkefnið á meðan.

Ef við tökum dæmi um skósala þá myndi skósalinn setja “skór” á miðju blaðsins. Útfrá því gæti hann skrifað

 • skógerð
 • skóstærð
 • litur á skóm
 • skór og tækifæri (spariskór á jólum)
 • skór og árstíðir (kuldaskór að vetri, sandalar að sumri)
 • skór og kyn

Skósalinn gæti svo tekið t.d síðasta atriðið í listanum hér að ofan “skór og kyn” og búið til þennan lista útfrá því

 • kvennmannskór
 • karlmannsskór

Þá fer hann kannski að hugsa um hvernig kaupferli kvenna er á skóm og hvernig kaupferli manna sé? Skósalinn ætti að þekkja kaupferlið, komið gæti í ljós að konur væru meira í því að kaupa skó sér til ánægju en karlmenn gætu verið meira í því að kaupa skó þegar hinir eru dottnir í sundur eða þegar eitthvað stendur til.

Hvernig myndi skósalinn þá selja karlmanni skó og á sama tíma auka á lífsgæði kaupandans ? Hvenær þarf karlmaður á nýjum skóm að halda? Það gæti t.d verið við vinnuskipti (skrifstofublók fer í garðyrkjuna), brúðkaup, það eru jól eða maðurinn fer í frí. Undir punktinn í listanum hér að ofan sem heitir “karlmannsskór” gæti skósalinn þessvegna skrifað:

 • ný vinna
 • lífsviðburður
 • árstíðir
 • frí

Þessa leitarorðarannsókn mætti síðan nota til þess að forma nokkra langa leitarorðafrasa. Sem dæmi:

 • góðir spariskór fyrir menn
 • endingargóðir kuldaskór fyrir karlmenn
 • bestu strandsandalarnir fyrir menn

Og enn lengri:

 • mjög góðir spariskór fyrir menn úr leðri
 • mjög góðir spariskór úr leðri fyrir menn undir 5000 kr
 • endingargóðir kuldaskór frá ecco með loðkannti fyrir menn
 • endingargóðir kuldaskór frá ecco með loðkannti fyrir menn á góðu verði

Afhverju að nota orð eins og “bestu”, “endigargóðir” og “á góðu verði”? Vegna þess að sé notandinn að leita að ódýrustu vörunni eða bestu vörunni er hann mjög líklega tilbúinn að kaupa. Þannig er gott að taka líka lýsandi orð eins og “besta”, “ódýrasta”, “hraðasta” o.þ.h með þegar langir leitarorðastrengir eru mótaðir.

Leitarorðastrengina sem skósalinn hefur sett saman mun hann síðan nota þegar hann setur efni á síðuna sína. T.d gæti hann sett inn myndband af því hvernig best er að bursta spariskó fyrir brúðkaupið. Hann gæti sett inn færslu með samanburði bestu kuldaskónna fyrir veturinn, eða sett fram hvaða spariskór séu inni á komandi ári. Hann gæti gert samanburð á ódýrum og dýrum skóm og sýnt hvernig best er að úða vatnsfráhrindandi efni á viðkvæma útiskó. Þú skilur, hann er að bæta lífsgæði væntanlegs viðskiptavinar / viðskiptavina sinna, með því að gefa þeim ókeypis ráð og ráðleggingar (sem auka lífsgæði viðskiptavinarins) um leið og hann stuðlar að sölu hjá sér.

Notaðu Google sem hjálpartæki

Til þess að auðvelda leitarorðagreiningarferlið er hægt að nota Google og prufa að slá inn leitarorð og sjá hverju Google stingur uppá í fellilistanum við leitargluggann. Einnig er neðst á Google hægt að sjá leitir sem eru svipaðar þeirri sem þú slóst inn.

Leitarstrengir tengdir orðinu skór

Þó svo að langir leitarorðastrengir séu ákjósanlegri en stuttir, þá þarf að gæta þess að vera með temmilega jafna skiptingu á milli langra og stuttra leitarorðastrengja. Eitt útilokar ekki annað, notum bæði.

Og svo þarf að framkvæma sjálfa greiningu leitarorðanna.

Hér eru nokkrar spurningar sem vert er að spyrja sig við upphaf greiningar þeirra leitarorðastrengja sem hafa verið settir saman.

Hvernig er samkeppnisaðilinn að skora á Google ? Hvaða leitarorð er hann að nota?

Þó svo að samkeppnisaðili þinn sé að nota ákveðin leitarorð þýðir það ekki endilega að það séu leitarorð sem þú ættir að vera að nota. Hinsvegar ef þú veist hvaða leitarorð samkeppnin er að nota til að reyna að skora hærra á Google, hefur þú í hendi ákveðið hjálpartæki fyrir þinn eigin lista af leitarorðum, hvað getur þú gert betur? Hvað aðgreinir þig frá samkeppninni?

Ef samkeppnin er að nota sömu orð og þú, þá ættir þú pottþétt að halda áfram að reyna að skora hærra á Google með þeim leitarorðum. Um leið og þú hefur þetta í huga þá máttu heldur ekki ganga framhjá þeim orðum sem þú sérð að samkeppnin er ekki að nota, en þú ert búin/n að finna uppá, því þar gætu legið gullin tækifæri í að komast hærra. Og já, þetta ER keppni! Og já, það verður að fylgjast með hvaða strengir eru að virka og hverjir eru ekki að virka. Þetta er ekki einsdags verkefni heldur verk sem unnið er jöfnum höndum yfir lengra tímabil.

Hvernig sérð þú hvað samkeppnisaðilinn er að nota eiginlega?

Fyrir utan að leita handvirkt á síðum samkeppnisaðilans í ósýnilegum vafraglugga (incognito) glugga má nota SEMrush , en þar er hægt að slá upp nokkrum síðum frítt og sjá t.d hvaða vefsíður eru taldar vera í samkeppni um hvaða leitarorð.

Tól sem nota má til greiningar og til þess að fá nýjar leitarorða hugmyndir:

Notaðu Google AdWords Keyword Planner til þess að fá betri yfirsýn yfir leitarorðin þín. Þú getur fengið gefið upp áætlun yfir hve mikla umferð (traffic estimates) ákveðin leitarorð munu fá á komandi tímabili og hve hátt leitargildi (search volume) orðin hafa.

Tólið er ætlað þeim sem ætla að setja upp Google auglýsingu en það er handhægt til þess að skoða hve hátt eða lágt leitargildi orðin hafa.

Notaðu Google Trends til þess að skoða hvaða leitarorðastrengir gætu verið að ná vinsældum og skoðað sögu þeirra líka. Tólið getur hjálpað þér að ákveða hvaða leitarorðastrengi gott er að hafa með. Google Trends sýnir líka hvaða leitarorð eru vinsæl akkúrat núna, svona ef þú skyldir vilja skora hátt á Google strax.

Þegar leitarorðalistinn er tilbúinn og greining hefur farið fram er tími til kominn að nota orðin í innihaldi síðunnar þinnar, en innihald (content) er einmitt einn af þeim fjórum stóru þáttum, ásamt áreiðanleika, aldri og hve viðeigandi (þ.e hve viðeigandi efnið á þinni síðu er m.v leit sem slegin er inn) síðan er, sem Google notar til þess að ákveða hvort vefsíðan þín eða síður innan hennar eru þess virði að birta efst í leitarniðurstöðunum.