Hægt er að auka við grunngetu WordPress með viðbótum (plugins). Það er varla WordPress vefur þarna úti sem ekki keyrir einhverja virkni á viðbótum. Það sem þarf að hafa í huga við viðbætur er að rannsaka vel uppruna þeirra, lesa umsagnir og ganga úr skugga um að framleiðandi þeirra geri umbætur á þeim í takti við uppfærslur sem koma frá WordPress.
Hér er lítill leiðarvísir í því hvernig þú setur upp viðbót á síðuna þína.
Áður en þú byrjar
Ef þú ert með WordPress síðuna þína á wordpress.com, geturðu ekki notað viðbætur. Til þess að geta notað viðbætur verður þú að setja WordPress upp á eigin hýsingu.
Setja upp viðbót úr WordPress viðbótasafninu
Auðveldasta leiðin til þess að setja upp viðbót er að nota viðbótasafn WordPress. Þú finnur safnið í gegngum síðuna þína með því að fara í bakenda síðunnar þinnar og velja þar úr svörtu hliðarvalmyndinni „Viðbætur“ og þar undir í „Setja upp viðbót“.
Næsta skref er að nota leitina til þess að leita að þeirri virkni sem þú ert á höttunum eftir. Það er því miður ekki hægt að leita á íslensku heldur verður að gera það á ensku. Segjum að þig langi til að hafa reiknivél á síðunni þinni, þá slærðu inn „calculator“ og sérð hvað dúkkar upp.
Fyrst þarftu að skoða hvort viðbótin hafi þá virkni sem þú óskar. Þetta gerir þú með því að smella á „Meiri upplýsingar“ (númer 1 á myndinni).
Ef lýsingin passar við það sem þú ert að leita að þarftu að skoða spjald viðbótarinnar aðeins betur. Þú þarft að athuga:
- Hvenær viðbótin var síðast uppfærð (2)
- Hvort hún er samhæf þeirri útgáfu af WordPress sem þú ert með (3)
- Það er alltaf meira traustvekjandi ef viðbót er vinsæl og fær góða dóma (4)
Gott að miða við að setja aldrei upp viðbót nema hún sé samhæf WordPress útgáfunni sem þú ert með og láta vera að setja upp viðbætur sem voru uppfærðar síðast fyrir 3 árum, líklegt er að framleiðandinn sé hættur að eiga við hana og þar með er hún talin vera ógn við öryggi vefins.
Þegar þú ert búin/n að velja smellirðu einfaldlega á bláa hnappinn sem á stendur „Setja upp“ (5) og þar á eftir á „Virkja“.
Þar með er viðbótin sett upp og virk. Hér eftir myndir þú svo fara í að stilla viðbótina. Viðbætur má alltaf finna í listanum yfir uppsettar viðbætur. Flestar viðbætur hafa einnig einhversskonar stjórnborð og er oft að finna í svörtu hliðarvalmyndinni í bakenda síðunnar en ekki alltaf, sumar birtast bara sem síðuhlutur, aðrar sem sér valmyndaratriði eða sem undirvalmyndaratriði. Eiginlega verður þú bara að leita 🙂
Setja upp keypta viðbót eða eina sem ekki finnst í viðbótasafni WordPress
Sumar viðbætur eru ekki í viðbótasafni WordPress. Margar viðbætur sem þarf að borga fyrir eru t.d ekki í því safni. Ef þú hefur keypt viðbót þarftu að setja hana upp handvirkt.
Fyrst þarftu að hlaða viðbótinni niður frá þeim sem þú keyptir hana hjá. Í langflestum tilfella færðu .zip skrá (þjöppuð skrá). Í flestum, ekki öllum, tilfellum er þetta skráin sem þú síðan hleður upp, en það getur líka verið að með viðbótinni fylgi einhverskonar leiðbeiningar eða önnur skjöl. Þannig, í sumum tilfellum, þarftu að opna þjöppuðu skrána og sækja sjálfa viðbótina, sem líka er í .zip skjali, þangað. Þú kemst að því hvort þetta er svona hjá þér ef WordPress kvartar og segir að það hafi ekki fundið neina viðbót.
Hlaða upp viðbót handvirkt
Farðu fyrst í Viðbætur í svörtu hliðarvalmyndinni í bakenda síðunnar þinnar og smelltu á „Hlaða upp viðbót“ sem birtist efst á viðbótasíðunni.
Þarna færðu möguleika til að sækja skrá úr tölvunni þinni, getur líka dregið hana yfir.
Þegar kerfið hefur sett upp viðbótina, smellir þú á „Virkja viðbót“. Þú getur vel haft margar óvirkar viðbætur uppsettar, virkni þeirra kemur ekki fram fyrr en þær hafa verið virkjaðar.
Þriðja aðferðin við að setja upp viðbót
Það er best að nýta sér þær tvær aðferðir sem lýst er hér að ofan, en stundum kemur fyrir að eitthvað kemur í veg fyrir að það sé hægt að hlaða upp viðbótum á þann máta. Það getur verið allt frá galla í viðót, hún of stór m.v leyfilegt upphals magn eða þjóninn sem síðan er hýst á er haldinn einhverjum höftum.
Til þess að geta hlaðið upp viðbót án þess að gera það í gegnum bakenda vefsins verður þú að hafa svokallaðan ftp aðgang og nota ftp forrit. Ftp aðganginn færð þú hjá hýsingaraðilanum þínum og þú getur hlaðið niður forriti sem heitir FileZilla, þér að kostnaðar lausu. Googlaðu bara FileZilla.
Þegar ert komin/n í gang með ftp forritið og búin/n að fá aðganginn, tengistu við síðuna og finnur veginn að möppu sem ber nafnið „plugins“ með því að finna wordpress uppsetninguna og opna möppuna wp-content.
Ef viðbótin sem þú ætlar að hlaða upp er í .zip skrá verður þú að opna hana og hlaða svo upp öllu innihaldinu í sama möppustrúktúr og það er í. Í öllum tilfellum eru öll skjöl viðbótarinnar í möppu sem ber nafn viðbótarinnar (eða einhverju í áttina að því). Því má ekki breyta.
Þegar upphleðslu er lokið, ferð þú í bakenda síðunnar þinnar og virkjar viðbótina, hún ætti að vera í listanum yfir uppsettar viðbætur.
Leave A Comment