Þarf ég nokkuð að fá mér vef, get ég ekki bara notað Facebook?

Ég fór í viðtal til Óla Jóns, sem starfar sem sölu og markaðsstjóri hjá Tactica og er maðurinn á bak við míkrafóninn á Hlaðvarpinu á jóns.is um daginn og við ræddum aðeins milljónkrónaspurninguna “Er ekki nóg að vera bara með Facebook?”. Mig langar að fara aðeins nánar ofaní saumana á þessu.

Svarið er afar einfalt og það er alveg kalt nei.

Ástæðan fyrir því að þú getur ekki “bara” verið með Facebook er að þú átt ekki Facebook (nema þú sért Mark Zuckerberg?) og stjórnar ekki reglunum þar. Það væri mjög riskí bisness að vera komin með risastóran viðskiptavinahóp á Facebook síðu fyrirtækisins og svo myndi Facebook breyta reglunum eða jafnvel loka og þá hefurðu misst allt samband við notandann og það eru náttúrulega bara tapaðir peningar.

Önnur ástæða er að það er alveg glatað að núverandi og tilvonandi viðskiptavinir þínir þurfi að skrá sig inn einhversstaðar til þess að komast í samband við þig eða njóta góðs af þjónustunni sem þú býður uppá. Ef viðskiptavinurinn getur af einhverjum ástæðum, sem þú hefur enga stjórn á, ekki skráð sig inná Facebook, þá missir þú af dýrmætu tækifæri til þess að bjóða þjónustu þína.

Hvað áttu þá að gera?

Vera með bæði. Þú þarft að vera með vel ígrundaðan vef og Facebook síðu, eða annan samfélagsmiðil, helst þann/þá sem viðskiptavinir þínir nota. Hvorttveggja kallar á uppsetningu skammtíma- og langtímamarkmiða sem vinna þarf að. Hvorugt er eitthvað sem mun virka með því að smella því upp, fylla útí reitina og láta það svo bara vera.

Það er í raun þannig að þú þarft að leggja á þig (eða þá sem þú ræður til að ganga í málið) töluverða vinnu til þess að komast ofarlega á leitarvélum og vera þar og til þess að fá birtingu á Facebook. Það fer nefnilega eftir ótrúlega flóknum reglum Facebook og leitarvéla hvaða efni kemst fyrir augun á viðskiptavininum og það er það sem skiptir máli, þú vilt fera fyrir augum viðskiptavinarins og þú vilt fá hann til að grípa til aðgerða – helst auðvitað að hann velji að koma í viðskipti.

Ég skil.. þetta kostar

Ég skil mætavel að kostnaður við vefsíðugerð geti staðið í einyrkjum og litlum fyrirtækjum. Það er hinsvegar, þegar upp er staðið og vel er haldið á spöðunum, samt ekki tapað fé – vegna þess að vel gerð vefsíða mun vinna að því að koma þér á framfæri og selja fyrir þig. Vefsíðugerðarkostnað má, og ætti, að reikna með sem part af kostnaði við að stofna og opna fyrirtæki. Kostnað við rekstur vefsíðu (og samfélagsmiðla) ætti svo að reikna með, sem rekstrarkostnað.

Það er gulls í gildi að hafa vefstjóra á kantinum sem er tilbúinn til þess að veita sína þjónustu þegar lítil eða stór verkefni eða vandamál koma upp. Þannig líður mér einmitt þegar pípurnar í húsinu mínu fara að leka – þá er alveg með eindæmum gott að geta hringt í fagmanneskju og málið er dautt… eða blautt?

Vertu í sambandi ef þú þarft á vefumsjón að halda.

Getur einnig lesið meira um hvað við bjóðum uppá í þeim efnum hér.