Kannski hefur þú nú þegar heyrt um leitarvélabestun og hve nauðsynleg hún er fyrir vefinn þinn, ef þú vilt að hann finnist á leitarvélum. Þegar ég segi nauðsynleg fyrir vefinn þinn þá er ég í rauninni að meina að leitarvélabestun sé nauðsynleg fyrir afkomu fyrirtækis og/eða starfssemi þinnar.

Hvað er leitarvél? Google, Yahoo og Bing eru leitarvélar. Við notum leitarvélar til þess að slá upp, eða “að gúgla”, því sem við viljum finna á internetinu. 

Það fer ekki lengur á milli mála að vefsíða fyrirtækis þíns er andlit fyrirtækisins, eiginlega eins og þjónustufulltrúi sem fyrst af öllum tekur á móti viðskiptavinum þínum. Þjónustufulltrúinn á að vera snyrtilegur, viðkunnalegur, sveigjanlegur, geta gefið allar upplýsingar um vörur þínar eða þjónustu og hann á að vera til taks alltaf þegar viðskiptavinur þinn hefur þörf á og hann þarf að tala það tungumál sem viðsktiptavinurinn skilur.

Ef þjónustufulltrúinn þinn er ekki vel að sér, er dónalegur og alls ekki sveigjanlegur, er nánast öruggt að sá sem lenti í því að tala við hann setur samasem merki á milli fyrirtækis þíns og hvernig þjónustufulltrúinn kom fram, semsagt mun ekki koma aftur og myndi leita til samkeppnisaðila. Vegna þess að þjónustufulltrúinn er fyrsti snertipunktur milli fyrirtækis þíns og viðskiptavinarins skiptir máli að fulltrúinn sé allur af vilja gerður til þess að bjóða viðskiptavininn velkominn, bjóða honum sæti, sýna honum það sem honum finnst á hugavert, taka af honum jakkann og fá honum kaffi.

Vefurinn þinn er þjónustufulltrúinn þinn á netinu. Þar eru auðvitað þúsundir þjónustufulltrúa sem allir keppast við að koma sínu á framfæri og lykillinn að því að gera þinn þjónustufulltrúa að topp fulltrúa, er að vera viss um að hann viti hvað hann á að segja og sýna, s.s leitarvélabesta hann.

En hvað er leitarvélabestun og afhverju er hún svona mikilvæg?

Leitarvélabestun er: að framkvæma þær aðgerðir sem mælt er með hverju sinni, sem verða til þess að vefsíðan þín og efnið á henni birtist eins ofarlega og hægt er á Google og öðrum leitarvélum og er viðskiptavinum þínum til góða.

Ef við byrjum á fyrriparti þessarar skýringar “framkvæma þær aðgerðir sem mælt er með hverju sinni” þá má reikna með að þetta sé í raun framkvæmd, en ekki einnota uppsetning, ef svo má að orði komast, sem ekkert annað þarf að gera við. Framkvæmdin felst í því að vinna jafnt og þétt að leitarvélabestuninni og fylgjast með hvaða breytingar eru gerðar af hendi Google (eða öðrum leitarvélum) í þessum efnum.

Það þarf að byggja góðan grunn og byggja svo ofan á hann allan tíman meðan starfssemi er í gangi.

Miðpartur skýringarinnar “sem verða til þess að vefsíðan þín og efnið á henni birtist eins ofarlega og hægt er á Google og öðrum leitarvélum”  á við að það er ekki bara forsíðan sem hefur möguleika á að komast efst á Google heldur líka allar undirsíður, bloggfærslur og myndir. Það þarf að leitarvélabesta vefinn sem heild. Að vera efst á Google skiptir mjög miklu máli, það er staðreynd.

Seinnipartur skýringarinnar “og er viðskiptavinum þínum til góða”  er lykill í þessu öllu saman. Leitarvélabestun í dag fjallar að miklu leiti um að framleiða gæða efni (quality content) fyrir viðskiptavini þína, eitthvað sem bætir lífsgæði viðskiptavinarins. Tökum sem dæmi pípara. Hann er í samkeppni við aðra pípara á landinu og eðli málsins samkvæmt í dag, fer tilvonandi viðskiptavinur píparans á internetið og slær inn “pípari” á Google.

Píparinn hefur kynnt sér leitarvélabestun og á vefsíðu sem hann hefur bestað. Þar hefur hann sett fram hin og þessi ráð í sambandi við pípur og pípulagningar. Hann hefur t.d skrifað bloggfærslu um 7 algengustu mistök sem fólk gerir þegar það vill tengja heitapottinn, hann hefur skrifað hjálplegar greinar um hvernig fólk getur fyrirbyggt stíflur og hann hefur gert myndband þar sem hann fer yfir hvernig á að tengja eldhúsvaskinn.

Vegna þess að píparinn hefur lagt mikla vinnu í að gefa fólki ráð (= auka lífsgæði þeirra)  á síðunni sinni hefur hann ekki bara staðfest að hann veit hvað hann er að tala um og fólki mun líða eins og það þekki hann nú þegar, heldur mun hann lenda ofar á Google heldur en hinn píparinn sem ekki hefur girt sig í brók og leitarvélabestað síðuna sína. Óstaðfest og óformleg rannsókn sem ég annaðhvort gerði eða gerði ekki sýndi frammá að almennt er fólk hætt að draga fram doðrant að nafni Símaskrá til þess að blaða í gegnum gulu síðurnar í þeim tilgangi að finna þá þjónustu sem það þarf.

Hvort myndir þú velja? Okkar pípara sem þér finnst eins og þú þekkir og þú veist að hann veit hvað hann syngur eða hinn sem er illa girtur ?

Þegar upp er staðið snýst þetta um að gera allt sem þú getur til þess að fá tilvonandi viðskiptavini til þess að velja þig og þínar vörur eða þjónustu frekar en samkeppnisaðilans.

Hvernig á að leitarvélabesta – grunnur fyrir byrjendur

Letarvélabestun er bæði flókin og einföld. Hún er flókin að því leitinu til að eigandi vefsíðu, sem ekki hefur tilskylda menntun eða kunnáttu (..eða tíma), gæti átt erfitt með að fara ofaní alla saumana á bestuninni. En einföld ef þú veist hvað þú átt að gera næst, þ.e þú ert í sambandi við vefhönnuði, kóðara, markaðssetjara, textahöfunda og annað fagfólk í þessum geira, sem veit hvað það er að gera og er tilbúið til þess að hjálpa.

Hægt er að líta á leitarvélabestun í þessum þremur þáttum:

Tæknileg leitarvélabestun (technical): allt sem undirbýr síðuna þína svo leitarvélar eigi auðvelt með að skanna hana. Einnig allt sem gerir umsjónarkonu vefsíðunnar auðveldara fyrir að besta hana dags daglega.

Innan-vefsíðu leitarvélabestun (On-Page): allt sem gert er á vefsíðunni sjálfri, allur texti, myndir, myndbönd, hönnun, hver upplifun notenda síðunnar er, hvort síðan sé skalanleg, textinn læsilegur og hér fram eftir götunum.

Utan-vefsíðu leitarvélabestun (Off-Page): hér er verið að tala um hvernig þín síða tengist öðrum síðum á internetinu,  þá meina ég hvort tenglar sem benda á þína síðu komi frá t.d háttsettum (authorative) síðum og hvort tenglarnir séu viðeigandi (séu í tengslum við efnið á þinni síðu). Utan-vefsíðu leitarvélabestun fjallar einnig um notkun á samfélagsmiðlum í markaðssetningu og hvað fólk hefur að segja um vöru þína og þjónustu (reviews).

Spurningunni um hvernig á að leitarvélabesta verður ekki svarað í einni grein, sem er ástæðan fyrir því að þessi grein er inngangur að röð pósta um leitarvélabestun. Ég mun fara ofaní saumana á því hvað þú getur gert til að bæta stöðu síðunnar þinnar og leitast við að útskýra hugtök og aðferðir.